Um Málþing

Sögu Málþings má rekja aftur til 1. maí 1984, þegar Skúli Bjarnason lögmaður lét af störfum í fjármálaráðuneytinu og opnaði lögmannsstofu í Reykjavík. Fyrirtækinu óx fljótt fiskur um hrygg og bættust strax um haustið tveir lögmenn í hópinn, auk annarra starfsmanna. Fyrirtækið hóf starfsemi að Suðurlandsbraut 6, en flutti þaðan árið 1987 að Suðurlandsbraut 22, eftir stutt stopp í Ármúla 3. Lögmannsstofan var starfrækt á Suðurlandsbrautinni í 13 ár, en tók þá stefnu á miðbæinn með millilendingu að Skipholti 50C. Málþing hefur svo verið til húsa að Ingólfsstræti 3 frá árinu 2006, steinsnar frá Hæstarétti, héraðsdómi og öllum helstu ráðuneytum, opinberum stofnunum og embættum. Málþing eignaðist fljótt stóran kjarna viðskiptavina; fyrirtækja, opinberra aðila og einstaklinga, sem margir halda tryggð við fyrirtækið enn þann dag í dag. Á þeim rúmlega þrjátíu árum sem lögmannsstofan hefur verið starfrækt hafa starfsmenn komið og farið en af núverandi starfsmönnum á Skúli Bjarnason, hrl. lengstan starfsaldur eða allt frá stofnun stofunnar. Hólmfríður Helga Jósefsdóttir hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 1992 sem sérhæfður aðstoðarmaður og bókari, en Erla Skúladóttir gekk til liðs við lögmannsstofu föður síns á árinu 2006 og var nafnið Málþing þá tekið upp. Bjarki Már Baxter og Trausti Ágúst Hermannsson gengu til liðs við stofuna haustið 2019. Saman myndar starfsfólk Málþings öfluga heild, þar sem hver og einn hefur sínar áherslur og sérsvið en nýtur um leið góðs af víðtækri reynslu og þekkingu hinna.